Pólitísk samskipti

Finnland og Ísland tóku upp stjórnmálasamband þann 15. ágúst 1947 og er 75 ára stjórnmálasambandi því fagnað í ár. Sendiráð Finnlands hóf starfsemi í Reykjavík árið 1982 og sendiráð Íslands í Helsinki árið 1997. Bæði ríki eru lýðveldi með forseta sem þjóðhöfðingja og fara forsetar ríkjanna í reglulegar opinberar heimsóknir til hvors annars.

Urho Kekkonen var fyrsti forseti Finnlands til þess að sækja Ísland heim í ágúst 1957 en hann var forseti Finnlands um ríflega 25 ára skeið.

Kristján Eldjárn var fyrsti forseti Íslands sem fór í opinbera heimsókn til Finnlands í mars 1972.

Sauli Niinistö, núverandi forseti Finnlands, fór í opinbera heimsókn til Íslands árið 2013 (fyrst kjörinn 2012).

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sótti Finnland heim í opinberri heimsókn árið 2018 (fyrst kjörinn 2016).

Ráðherrar þjóðanna hittast reglulega á alþjóðlegum vettvangi.

Ísland og Finnland taka virkan þátt í opinberu norrænu samstarfi, sem oft er nefnt N5, ásamt setu í Norrænu ráðherranefndinni og Norðurlandaráði. Bæði ríki taka þátt í norrænu varnarsamstarfi á vettvangi NORDEFCO (Nordic defence and security cooperation) og vinna einnig náið með Eystrasaltsríkjunum, á vettvangi sem kallast NB8.

Eitt meginmarkmið norræns samstarfs er að samskiptin séu greið og auðveld. Stöðugt er unnið að því að bæta skilyrði til búsetu, atvinnu og náms á Norðurlöndum.

Árið 1952 var tekið upp vegabréfafrelsi á ferðum innan Norðurlanda og árið 1958 var umfangsmeira norrænu vegabréfasambandi komið á, undanfara Schengen, sem við þekkjum í dag.

Sameiginlegur vinnumarkaður Norðurlanda var stofnaður árið 1954. Með frjálsri för launafólks varð hann undanfari innri markaðar Evrópusambandsins (ESB).

Árið 1955 tók Norðurlandasamningur um félagslegt öryggi gildi. 

Fastur sáttmáli um norrænt samstarf, Helsingforssamningurinn, var samþykktur 23. mars 1962 og er þeim degi fagnað sem degi Norðurlanda.

Löndin tvö taka virkan þátt í evrópsku samstarfi – Finnar á vettvangi ESB og Íslendingar sem aðilar að EES-samningnum og sem EFTA-ríki.

Ísland er stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu (NATO). Finnland sótti um aðild um mitt ár 2022.

Samstarf á vettvangi Norðurskautsráðsins hefur verið áherslumál beggja ríkja um árabil.

Finnland og Ísland taka virkan þátt í starfi Sameinuðu þjóðanna og hafa einbeitt sér að mannréttindamálum og gildum réttarríkisins í samstarfi við önnur Norðurlönd.

Ríkin hafa m.a. unnið saman að jafnréttismálum karla og kvenna, baráttu í loftslagsmálum, friðsamlegri lausn deilumála og sjálfbærri þróun.